Ábyrg spilun

Samfélagsleg ábyrgð

Þátttaka í veðleikjum (hér eftir notað um alla happdrættis- og peningaleiki) er skemmtun sem jafnframt felur í sér von um vinning. Ágóði af starfsemi af Happdrættis Háskóla Íslands (HHÍ) fer til uppbyggingar á húsnæði og kaupa á rannsóknartækjum fyrir Háskóla Íslands. HHÍ gerir sér þó grein fyrir því að þátttaka í veðleikjum er ekki áhættulaus. Samfélagsleg ábyrgð og áhersla á ábyrga spilahegðun er því rauður þráður í allri starfsemi Happdrættisins. Á undanförnum árum hefur HHÍ gripið til margvíslegra ráðstafana til að lágmarka hættu á spilavanda og spilafíkn. Spilafíkn er sjúkdómur sem samkvæmt erlendum og íslenskum rannsóknum hrjáir um 0,3 – 1,0% mannkyns, en getur haft alvarlegar sálrænar, félagslegar og fjárhagslegar afleiðingar fyrir spilara og reyndar einnig aðstandendur þeirra.

Rannsóknir

HHÍ hefur um nokkurra ára skeið stutt myndarlega við íslenskar rannsóknir á sviði spilafíknar. Frá árinu 2002 hefur HHÍ veitt yfir 30 milljónir kr. til rannsókna á spilafíkn, en dr. Daníel Þór Ólason, lektor í sálfræði við Háskóla Íslands hefur leitt þá vinnu ásamt samstarfsfólki sínu. Markmið rannsóknanna hefur verið að auka þekkingu á algengi og útbreiðslu spilafíknar hérlendis og hefur þegar umtalsverðum gögnum verið safnað um algengi spilavanda bæði meðal íslenskra unglinga og fullorðinna. Einnig styrkir HHÍ SÁÁ um 15 milljónir á ári og Rauða kross Íslands um 500 þúsund á ári.

Aldurstakmarkanir

Óheimilt er samkvæmt lögum að selja veðleiki til viðskiptavina yngri en 18 ára. HHÍ leggur ríka áherslu á að lög um aldurtakmarkanir séu virt. Þeir aðilar sem gert hafa samninga við HHÍ um rekstur happdrættisvéla Gullnámu og Gullregns eiga það sameiginlegt að reka staði þar sem aldurstakmörk eru að lágmarki 18 ár, en iðulega 20 ár.

Lán til spilunar

Ekki eru veitt lán til þátttöku í leikjum HHÍ undir neinum kringumstæðum.

Markaðssetning

Mikilvægt er að markaðssetning peningaleikja taki mið af þeirri áhættu sem kann að hljótast af óhóflegri spilun. HHÍ gætir þess í hvívetna að höfða ekki til viðkvæmra hópa, svo sem barna og unglinga, eða gefa til kynna villandi upplýsingar svo sem um vinningslíkur.

Meðferðarúrræði og fræðsla til spilara

HHÍ og Íslandsspil reka saman vefinn: www.abyrgspilun.is. Á vefnum má finna margvíslegar upplýsingar um eðli spilavanda og spilafíknar. Þar eru einnig leiðbeiningar til þeirra sem vilja leita sér aðstoðar vegna spilavanda, sem og sjálfspróf. Upplýsingabæklingur Ábyrgrar spilunar um meðferðarúrræði og ráðleggingar varðandi hæfilega spilun liggur frammi á öllum spilastöðum sem bjóða Gullnámu og Gullregn.

Evrópustaðall um ábyrga spilahegðun

2012 innleiddi HHÍ í fyrsta skipti staðal um ábyrga spilun sem þróaður hefur verið á vettvangi Evrópusamtaka ríkishappdrættisfyrirtækja (European Lotteries). Staðallinn tekur til allra þátta starfsemi HHÍ, svo sem stefnumótunar, vöruþróunar, fræðslu til starfsfólks og umboðsmanna, stuðnings við meðferðarúrræði, rannsókna og markaðssetningar. Í framhaldi af úttekt KPMG á fylgni við staðalinn fékk HHÍ í fjórða sinn í janúar 2024 endurnýjaða vottun European Lotteries þess efnis að fyrirtækið hefði innleitt staðal samtakanna um ábyrga spilun.

Skýrsla HHÍ um ábyrga spilun

Hér er skýrsla HHÍ um ráðstafanir fyrirtækisins gagnvart ábyrgri spilun. Hún gefur yfirlit yfir helstu verkefni og ráðstafanir HHÍ á þessu sviði á undanförnum misserum.

Ábyrg spilun - skýrsla 2023

×
Smelltu hér til að opna TeamViewer
Smelltu hér til að opna TeamViewer